Nokkur ráð við þreytu og orkuleysi

Hér eru nokkur atriði sem við þurfum að huga að svo við höfum næga orku og úthald til að sinna daglegu lífi og til að hafa aukaorku til að geta spilað golf.

Svefn

Meðalsvefntími er í kringum 6 tímar hjá fólki á dag, en mælt er með 7–8 klukkutímum svo líkaminn geti náð að byggja sig upp og hlaðið batteríin fyrir næsta dag. Ef við erum undir of miklu álagi hækkar hormónið cortisol, við það missum við orku sem við þurfum á að halda fyrir næsta atriði sem er líkamsrækt.

Líkamsrækt

Við höfum öll notað afsökunina „ég hef ekki tíma“ en við verðum að gefa okkur tíma fyrir einhvers konar líkamsrækt eftir að golfgöngutúrarnir eru komnir í vetrarfrí. Gerum eitthvað í vetur sem byggir upp úthald og gefur okkur meiri orku. Það er erfiðast að koma sér af stað svo best er að fá vin eða maka með sér í heilsuátakið, þannig eru minni líkur á að við hættum og gefumst upp. Munið að það er nóg að æfa í um það bil 30 mínútur annan hvern dag til að ná góðum árangri.

Næring

Reynum að borða mat sem gefur okkur góða orku og borðum um það bil 5–6 máltíðir með jöfnu millibili yfir daginn. Sælgæti og vörur með hátt sykurhlutfall eru orkuþjófur, gefa okkur falska orku í stuttan tíma. Munið að drekka nægilegt magn af vatni yfir daginn og forðast of mikla kaffi- og gosdrykkju.