Að vakna stíf/ur á morgnana
Margir kannast við að vakna stífir eða verkjaðir á morgnana eftir nætursvefn. En af hverju er þessi verkur, hvers vegna kemur hann og er eitthvað hægt að gera til að draga úr honum eða jafnvel fyrirbyggja að hann komi?
Morgunverkir geta verið margvíslegir, fylgt okkur út daginn eða horfið þegar við höfum komið okkur af stað út í daginn. Þessir verkir geta verið við háls, bak eða jafnvel axlir en eiga það eitt sameiginlegt að vera mest áberandi í morgunsárið eða truflað svefn.
En hvað er til ráða?
Fyrsta skrefið er að horfa gagnrýnum augum á rúmið sitt. Sagt er að flest rúm sem við sofum í „missi“ hönnuðu eiginleika sína eftir sjö ára aldur, sama hversu frábært við teljum rúmið vera. Sem dæmi má nefna er rúm sem hannað var til að vera stíft orðið slitið við sjö ára aldur og ákveðið ójafnvægi myndast í stífleika þess frá hvorum enda og miðsvæði þess þar sem mestur hluti þyngdar líkamans dvelur. Auk þess er mjög mikilvægt að hafa gott samræmi á þykkt kodda og stífleika rúms, því ef dýna er mjúk og sofið er með þykkan kodda, er staða hálsins of há miðað við stöðu líkamans. Staða sem þessi getur leitt til mjög algengra háls- og mjóbaksverkja. Þetta er einn af þeim algengu „svefnvillum“ sem við sjáum og auðvelt getur verið að bæta úr.
Þessir háls- og mjóbaksverkir virðast vera sérstaklega algengir hjá þeim sem sofa á maganum. Við að sofa á maganum liggjum við með andlitið til einnar hliðar í langan tíma sem setur meira álag á aðra hlið hálsins og fettir mjóbakið. Margir einstaklingar sem sofa á maganum eru einnig gjarnir á að setja aðra hönd undir höfuð sem einnig getur leitt til nýtilkominna eða langvarandi axlarverkja. Ýmsar rannsóknir hafa leitt í ljós að færri svefntímar á maganum geti leitt til minni verkja á umræddum svæðum.
Að lokum má nefna þá einstaklinga sem hafa átt í stríði við langvarandi verki sem orsakast ekki af slæmri svefnstöðu, en verða fyrir því að þeir verkir draga úr gæðum svefns. Fyrir þá er jafn mikilvægt að leita sér hjálpar og leita úrlausnar. Endurheimt svefns er afar mikilvægt skref í átt að bættri andlegri og líkamlegri líðan.
Kírópraktorstofa Íslands