Einstaklingar með höfuðverki ganga reglulega inn um okkar dyr. Höfuðverkir eru taldir vera eitt af grundvallarheilkennum sem kírópraktorar geta, oft og tíðum, hjálpað mikið með, samkvæmt vísindalegum rannsóknum (Bronfort et al., 2001). Þar sem höfuðverkir geta vissulega verið mjög alvarlegir verður að hafa varann á og vanda mjög til verka við greiningu þegar höfuðverkir eiga í hlut, en oft getur verið flókið að greina þá vegna þess að stundum  eru myndgreiningar og önnur próf óaðfinnanleg. Margvíslegir vefir höfuðsins, innan sem utan höfuðkúpunnar, geta framkallað verki sem flokkast mætti til höfuðverkja, svo sem heilahimnur, æðar, höfuðleður, kinnholur, tennur, kjálkaliðir, vöðvar, liðir og taugar, en þess má til gamans geta að heilavefurinn sjálfur finnur ekki fyrir sársauka eða tilfinningu.

Tölfræðilega eru höfuðverkir gríðarlega algengir, og upplifa langflestir höfuðverki á einhverjum tíma í lífinu, einna helst frá unglingsárum og upp að 50 ára aldri. Nákvæmar tölur yfir tíðnina hefur verið erfitt að mæla og illa hefur tekist að skrásetja þær, en víst er að flestir hafa upplifað höfuðverki af einhverju leyti, sérstaklega þeir sem drekka áfengi.

Höfuðverkir þurfa ekki alltaf að vera greindir heldur bregður þeim oft fyrir í flugumynd þegar fólk verður þreytt eftir langan dag, upplifir vökvaskort, borðar tiltekinn mat eða á við almenn veikindi. Þegar höfuðverkir byrja að verða krónískir á þann hátt að þeir hafa áþreifanleg áhrif á lífsgæði fólks, leiða til þess að fólk getur ekki stundað vinnu, skóla eða áhugamál, birtast alltaf í sömu mynd og við sömu aðstæður, er rétt að spyrja sig hvort að nauðsynlegt sé finna greiningu.

Tvær algengustu höfuðverkjategundirnar, sem einnig flokkast undir aðal höfuðverki (Primary Headaches), eru spennuhöfuðverkur og mígreni.

 

Spennuhöfuðverkur

Þessi tegund er talin vera algengasta höfuðverkjategundin með allt að 60% höfuðverkjabyrði á sumum heilbrigðiskerfum. Þó er lítið vitað um þessa tegund annað en það að sjúklingar eiga það sameiginlegt að vera aumir og spenntir í vöðvum í háls og hnakka, en einnig mögulega í herðum og brjóstkassa. Höfuðverkurinn myndast oft sem ákveðin þyngsli yfir allt höfuðið, einna helst sem ennisband utan um höfuðið og í kringum gagnaugað og ennið. Verkjastig er oft lágt til meðalhátt. Verkir eru gjarnan stanslausir, geta varað frá nokkrum mínútum upp í nokkra daga, jafnvel vikur, versna oft með deginum en virðist mildast við hvíld.

Hér er verið að tala um þennan týpíska vöðvabólguhöfuðverk. Það sem virðist hafa mikil áhrif á þessa tegund er streita, vöðvabólga í herðum, framstæð höfuðstaða, slæm líkamsstaða, tölvunotkun, skrifborðsseta o.s.frv. Oft má einnig rekja mikla snjallsímanotkun til spennuhöfuðverkja, sérstaklega hjá börnum og unglingum í dag.

 

Mígreni

Samkvæmt tölum frá Global Burden of Disease, árið 2010 var mígreni þriðja algengasta greinda röskunin í heiminum og árið 2017 voru höfuðverkir (aðallega mígreni) í öðru sæti yfir algengustu orsök örorku í heiminum hjá fólki undir 50 ára aldri hjá bæði körlum og konum, á eftir mjóbaks verk (sjá skýrslu GBD 2017).

Enn er margt óvitað um uppruna mígrenis og virðist ferlið flókið. Talið er að einkennin myndist þegar ósamræmi verður í þrengingum og útvíkkunum æða í heila og heilahimnum, en það er þó ekki svo einfalt. Svo virðist sem mígrenissjúklingar upplifi einhvers konar almennt skerta taugastarfsemi að einhverju leyti og lítið þurfi til að koma taugakerfinu úr jafnvægi. Þá má oft rekja mígrenisköst til einhverskonar uppróta sem orsaka höfuðverkjakast. Algengustu orsakirnar eru áfengi, streita, þreyta, hungur og tíðablæðingar (hjá konum) en einnig geta aðrir umhverfisþættir eins og veðurbreytingar, ákveðnir ostar, tölvunotkun og jafnvel súkkulaði einnig haft áhrif.

Mígreni kemur fram með eða án áru, þ.e. einhverskonar taugafræðileg einkenni sem birtast rétt áður en höfuðverkurinn sjálfur kemur fram, oftast í formi sjóntruflana. Höfuðverkirnir geta varað í 4-72 klst., eru yfirleitt staðsettir öðrum megin í höfði, einkennast oft af þungum æðaslætti í höfði, verkjastig er oft meðalhátt til hátt og oft fylgir höfuðverknum ógleði, uppköst, viðkvæmni fyrir björtum ljósum eða háværum hljóðum.

Mikilvægt er þó að nefna að til eru þónokkrar nákvæmari, sérstæðari tegundir af mígreni, en þessar tvær tegundir eru þær algengustu.

 

Kírópraktísk meðhöndlun gegn höfuðverkjum

Það sem bent hefur verið á með vísindalegum rannsóknum á kírópraktík undanfarin ár er að kírópraktorar geta veitt árangursríka meðferðir við vandamálum fólks með mjóbaksverki, hálsverki og höfuðverki (Blanchette et al., 2016; Bronfort et al., 2001; Bussières et al., 2018; Hurwitz et al., 1996). Við viljum meina að kírópraktíkin sé mun stærri en einungis þessir hlutir,  en að hvaða leyti getum við hjálpað til við að draga úr höfuðverkjum?

Kírópraktorarnir á Kírópraktorstofu Íslands styðjast við hnykkingar sem sitt aðal meðferðarúrræði og eru hvað þekktastir fyrir það, en beita einnig öðrum úrræðum eins og vöðva og bandvefslosun, almennum heilsuráðum, gefum æfingar og næringarráðgjöf svo eitthvað sé nefnt. En hvað gera hnykkingar við höfuðverkjum?

 

Hreyfing stoðkerfisins

Aðalhlutverk kírópraktors er að losa um og leiðrétta hreyfiskerta liði í líkamanum. Oft á tíðum þegar liðir festast, fær hreyfikerfið (þ.e. vöðvar, bandvefur, liðbönd og liðþófar) ekki þá hreyfingu sem það þarf til að viðhalda góðri starfsemi og jafnvægi, og byrjar þá að þróa með sér ferli sem gæti myndað of mikla hreyfingu á einum stað en skerta hreyfingu á öðrum stað. Það vandamál gæti leitt til sama vandamáls annars staðar í hryggnum, oftast ofar í stoðkerfinu. Þess vegna eru ákveðnir staðir í skrokknum, einna helst hryggnum, gjarnir eru á að spennast alltaf upp.

Sem dæmi má nefna þann sem situr við skrifborð átta tíma á dag og byrjar að finna fyrir spennu í brjóstbaki þar sem líkamsstaða hans er gjarnan hokin fram á við og setur álag á hrygginn, sérstaklega á milli herðablaðanna. Þar sem efri hluti líkamans snýr nú niður á við þarf við komandi að líta upp á við til að sjá hvað gerist fyrir framan sig og það setur augljóslega álag á vöðvana hefst í hálsinum, sem viðkomandi gæti byrjað að finna fyrir seinna meir. Þá myndast spenna og eymsli í stoðkerfinu sem við meðhöndlum með hnykkingum.

Heilu bækurnar  hafa verið skrifaðar um hvað gerist við hnykkingar, hnykkingaraðferðir, hvenær skal og hvenær ekki skal hnykkja, hvar skal hnykkja, hvernig skal hnykkja o.s.frv. En eitt er víst, að þegar hnykkingum er beitt á góðan og réttan hátt, þá minnkar spenna í liðum og vöðvum svæðisins sem hnykkt er. Það sem við hnykkjum eru einmitt liðir sem virðast ekki hreyfast rétt, liðir sem gætu verið að skapa tog og spennu sökum snúninga eða skekkja sem gjarnan myndast og gæti, skiljanlega, skapað spennuhöfuðverk, ásamt öðrum vandamálum.

 

Áhrif hnykkinga á taugakerfið

Þess ber að geta að áhrif hnykkinga eru mjög umdeild og virknin ekki nógu vel skilin. Það er gömul saga kírópraktora að meðferðin hefur djúpstæð áhrif á taugakerfið. Vísindin hafa ekki alveg náð að útskýra til fulls hver áhrifin eru, en það sem við vitum í dag er að þegar við losum um þessa spennu í hreyfikerfinu okkar þá virkar taugakerfið okkar oftast betur á þann hátt að samskipti líkama og miðtaugakerfisins verða betri. Liðir, vöðvar, liðbönd, liðpokar og sinar í hryggnum eru yfirfull af litlum tauganemum, sem senda stöðug skilaboð upp í skynjunarkerfi líkamans til að láta vita hvað er að gerast á því svæði. Þegar liðir festast, þá minnka skilaboðin upp til heilans þar sem það er einfaldlega minni hreyfing á því svæði en á öðrum stöðum og því minni skilaboð til að senda upp. Þegar losað er um þessa spennu, þá sendast djúpstæð örvandi skilaboð upp til heilans frá svæðinu sem var hnykkt og það sem eftir stendur er þá taugakerfi sem gæti verið örlítið betra í að senda skilaboð frá líkamanum upp í heilann.

Þetta er sú virkni sem gæti átt sér stað í árangursríkri meðferð hjá fólki með mígreni. Eins og áður sagði þá virðist eiga sér stað skert taugastarfsemi í taugakerfi mígrenissjúklinga og með kírópraktískri meðferð sjáum við oftast þessa starfsemi skána.

Að lokum er mikilvægt að taka fram að fólk er mismunandi og meðferðir eru sniðnar að þörfum hvers og eins, eftir því sem við á. Þessar tvær höfuðverkjategundir eru einungis brot af fjölmörgum höfuðverkjagreiningum sem eiga sér stað hjá fólki. Stundum er fólk einnig með blöndu af tveimur, jafnvel þremur greiningum. Mikilvægt er að greina verkina rétt til að útiloka alvarlega höfuðverki og senda þarf kúnna til rétts heilbrigðisstarfsmanns til að meðhöndla slík tilfelli.

Við höfum þó séð að höfuðverkir upprætast alls ekki alltaf eftir kírópraktíska meðferð, sérstaklega þegar mígreni á í hlut. Heldur höfum við séð að fjöldi höfuðverkjakasta, verkjastig, örorka eða dagleg virkni og vellíðan hefur oft skánað eftir kírópraktíska meðferð. Einnig hafa rannsóknir sýnt fram á svipaðar niðurstöður (Rist et al., 2019).

Fyrir þá sem vilja auka lífsgæði sín, líða betur í sínum eigin líkama, vinna bug á verkjum, auka virkni taugakerfisins, læra heilmikið um sinn eigin líkama, minnka vöðvaspennu, auka hreyfigetu, eða mögulega minnka höfuðverki, þá er kírópraktík tilvalin viðbót í lífið.

Matthías Arnarsson

 

Heimildir:

Blanchette, M. A., M. J. Stochkendahl, R. Borges Da Silva, J. Boruff, P. Harrison, and A. Bussières, 2016, Effectiveness and Economic Evaluation of Chiropractic Care for the Treatment of Low Back Pain: A Systematic Review of Pragmatic Studies: PLoS One, v. 11, p. e0160037.

Bronfort, G., W. J. Assendelft, R. Evans, M. Haas, and L. Bouter, 2001, Efficacy of spinal manipulation for chronic headache: a systematic review: J Manipulative Physiol Ther, v. 24, p. 457-66.

Bussières, A. E., G. Stewart, F. Al-Zoubi, P. Decina, M. Descarreaux, D. Haskett, C. Hincapié, I. Pagé, S. Passmore, J. Srbely, M. Stupar, J. Weisberg, and J. Ornelas, 2018, Spinal Manipulative Therapy and Other Conservative Treatments for Low Back Pain: A Guideline From the Canadian Chiropractic Guideline Initiative: J Manipulative Physiol Ther, v. 41, p. 265-293.

Hurwitz, E. L., P. D. Aker, A. H. Adams, W. C. Meeker, and P. G. Shekelle, 1996, Manipulation and mobilization of the cervical spine. A systematic review of the literature: Spine (Phila Pa 1976), v. 21, p. 1746-59; discussion 1759-60.

Rist, P. M., A. Hernandez, C. Bernstein, M. Kowalski, K. Osypiuk, R. Vining, C. R. Long, C. Goertz, R. Song, and P. M. Wayne, 2019, The Impact of Spinal Manipulation on Migraine Pain and Disability: A Systematic Review and Meta-Analysis: Headache, v. 59, p. 532-542.