Kírópraktík sem meðferðarúrræði reiðir sig að mestu leyti á hnykkingar. Hnykkingar geta verið mjög fjölbreyttar og tilgangur þeirra getur verið mjög misjafn eftir aðferðum innan greinarinnar. Það sem stjórnar því hvar hnykkingin er framkvæmd er fyrirbæri sem við kírópraktorar köllum liðfall (e. subluxation). Hugtakið liðfall er rauði þráðurinn í kírópraktískri hugmyndafræði. Aðalmarkmið kírópraktora er að finna og leiðrétta þessi liðföll og þar með bæta starfsemi tauga- og stoðkerfi skjólstæðingsins og stuðla að bættri heilsu. En hvað er liðfall?

Áður en hægt er að svara þeirri spurningu þarf að fara yfir líffærafræði mannslíkamans. Taugakerfið okkar samanstendur af heilanum, mænunni (miðtaugakerfið) og úttaugakerfinu, þ.e. taugunum sem koma út frá mænunni sem ferðast svo út um allan líkamann. Hryggsúlan og höfuðkúpan hýsa og vernda viðkvæmt taugakerfið. Á milli hryggjarliðanna eru svo göt sem úttaugarnar liggja um og þaðan um líkamann.

Heilinn er yfir stjórnkerfi líkamans og stjórnar starfsemi allra vefja og líffæra hans. Hann stjórnar hjarta- og æðakerfinu, lungunum, lifrinni, hormónakerfinu, vöðvunum, nýrunum o.s.frv. Stýringin frá heilanum felst í að stýra virkni hvers líffæris fyrir sig ásamt því að fá skilaboð aftur til heilans hvernig hvert líffæri starfar. Til dæmis þegar við borðum segir heilinn meltingarkerfinu að nú sé matur á leiðinni og seytir viðeigandi hormónum og meltingarensímum inn í meltingarkerfið svo við getum brotið niður matinn sem við borðum (einföldun á annars flóknu meltingarkerfi okkar). Þegar matarbitinn hefur verið meltur og tekinn upp í líkamann skynjar heilinn það og hægir á meltingunni, þangað til næsta máltíð kemur. Þetta kerfi er vissulega mjög flókið og starfar linnulaust allt okkar líf án þess að við þurfum að hugsa um það meðvitað (sem betur fer).

Liðfall á sér stað þegar hryggjarliður missir stöðu sína örlítið, skekkist eða snýst og stífnar í þeirri stöðu. Þetta veldur bólgu í liðnum sem orsakar truflun eða ertingu á taugina sem liggur um liðinn. Taugin er boðleið milli heilans og viðkomandi vefja (t.d. vöðva eða húðar) og þegar hún verður fyrir truflun eða skemmdum truflar það boð milli vefjarins og heilans. Liðfall hefur þannig truflandi áhrif á stjórn heilans á líkamsstarfsemi og jafnvægi innan líkamans.

Þegar liðir líkamans stífna upp og hreyfast óeðlilega getur það haft í för með sér einkenni á borð við stífleika, spennu (bæði frá vöðvum og liðum), verki, þreytu eða kraftleysi. Ef ástandið verður nógu slæmt byrja einkenni að þróast. Því má segja að áhrifin séu í raun tvíþætt; taugafræðileg og/eða stoðkerfisleg (oft kölluð mekanísk).

Kírópraktík í hnotskurn gengur út frá þeirri staðreynd að líkaminn okkar sé sjálfstjórnandi og sjálflæknandi og leitast við að ná jafnvægi öllum stundum. En þegar truflun og samskiptaleysi eiga sér stað í taugakerfinu verður erfitt fyrir líkamann að ná fullri heilsu, burtséð frá því hversu vel þú borðar, sefur, hreyfir þig og stýrir streitu.

Þess vegna hefur kírópraktík gríðarlega jákvæð áhrif á heilsu okkar allra.