Kírópraktor skoðar, greinir og meðhöndlar stoðkerfisvandamál tengd hryggjarsúlu líkamans. Kírópraktorar hjá Kírópraktorstofu Íslands taka stafrænar röntgenmyndir af skjólstæðingum í standandi stöðu sem geta gefið mikilvægar upplýsingar við greiningu á vandanum. Vöðva- og taugakerfið starfar í takt og umhverfi við hryggjarsúluna, því er heilsa og virkni hennar nauðsynlegur þáttur í heilbrigðum líkama. Með þekkingu sinni við greiningu og með sérhæfðri getu til meðhöndlunar er kírópraktor vel til þess fallinn að efla og styrkja heilbrigða virkni hryggjarsúlunnar.

Hvernig gagnast kírópraktík íþróttafólki/meðhöndlun íþróttafólks?

Íþróttir ganga út á þjálfun líkamans við ýmsar athafnir til sérhæfingar og árangur. Þjálfun krefst endurtekningar á tiltekinni hreyfingu til að ná árangri og það reynir sérstaklega á vöðva- og taugakerfið.
Til að þjálfun og iðkun íþrótta gangi vel fyrir sig þarf að vera jafnvægi og samhverfa í líkamanum. Ef það er óþarfa snúningur eða mishæð milli hægri og vinstri stoðkerfa aukast líkur á meiðslum umtalsvert.
Með því að leiðrétta skekkjur og misvægi í stoðkerfinu er íþróttamanni betur gert kleift að æfa og bæta sig án truflunar frá stífleika og einkennum frá hryggjarsúlu ásamt aðliggjandi liðamótum.

Sem sjúkraþjálfari og kírópraktor hjá knattspyrnuliðum hef ég séð mörg dæmi þess hvernig sérstakt álag knattspyrnuiðkunar á líkamann veldur skekkjum og snúningum á hrygg og mjaðmagrind. Knattspyrnumenn nota annan fótlegginn við að sparka og hinn til að halda líkamanum stöðugum og í jafnvægi meðan á sparkinu stendur. Þetta endurtekna álag getur valdið misræmi í kröftum og styrk milli hægri og vinstri fótar sem getur leitt til snúnings eða mishæðar í mjaðmagrind og mjóhrygg. Sífellt fleira knattspyrnufólk leitar eftir meðhöndlun og fyrirbyggjandi inngripum samhliða íþróttaiðkun sinni til að draga úr neikvæðum áhrifum einhæfs álags og draga þannig úr líkum á meiðslum. Oft þarf kröftuga sérhæfða meðferð, líkt og sú sem kírópraktor veitir, til að ná fram meðferðaráhrifum á sterka og þjálfaða vöðva í kringum mjóhrygg og mjaðmagrind knattspyrnufólks.

Helstu meiðslin í íþróttum tengd hryggnum.
Helstu íþróttameiðslin þar sem oft má tengja uppruna þeirra við skekkju eða misálag í hrygg eru tognun í aftanverðu læri, langvarandi álagseinkenni í hné og hnéskel, nárastífleiki og mjóbaksvandamál.

Heildræn nálgun vandans er nauðsynleg til að ráða bót á flóknari og oft langdregnari meiðslum í íþróttum og er þá hryggjarsúlan í aðalhlutverki sem upphaf flestra hreyfinga og stöðugleika.