Tölvuhálsar

Grein birt í Morgunblaðinu 29.sept 2013.

Svokallaðir „tölvuhálsar“ verða sífellt algengari,“ segir Jón Arnar Magnússon kírópraktor. Fæstir þekkja hugtakið „tölvuháls“ en það er notað um stoðkerfisvandamál í tengslum við mikla tölvu- og farsímanotkun.
Fjöldi fólks notar tölvur og farsíma daglega við leik og störf og óhætt er að segja að sannkölluð sprenging hafi orðið í útbreiðslu slíkra tækja á síðastliðnum árum.
Heilbrigðissérfræðingar víða um heim finna fyrir aukningu í stoðkerfisvandamálum í kjölfar aukinnar tæknivæðingar og sama þróun á sér stað hér á landi að mati Jóns.„Þetta er að breytast rosalega mikið á síðustu árum enda eyða margir heilu og hálfu dögunum í að beygja sig yfir tölvur og farsíma,“ segir Jón en hann þarf að takast á við tölvuhálsa á degi hverjum í tengslum við starf sitt sem kírópraktor.

Hálsinn leitar fram.„Hálsinn leitar fram þegar fólk starir á tölvuna og vinnur í símanum. Þetta raskar eðlilegu jafnvægi líkamans. Í grófum dráttum á sveigjan í hálsinum að endurspegla sveigjuna í mjóbakinu þegar maður horfir á mynd af hryggnum. Í tölvuhálsi er sveigjan í hálsinum hreinlega farin út um þúfur og er í litlu samræmi við mjóbakið. Slík skekkja skapar ýmis vandamál og leiðir af sér mikið álag á axlir og bak ásamt því að valda höfuðverkjum og bólgum.“

Hvað er til ráða?

Það er mikilvægt að draga úr tölvu- og farsímanotkun að mati Jóns og rétta almennilega úr líkamanum í hversdagslegu lífi.„Þjóðfélagið er orðið gegnsýrt af þessari tækni og sumir fara beint úr tölvunni yfir í símann án þess að rétta úr líkamanum á milli.“Hann segir mikla þörf vera til staðar fyrir vitundarvakningu um þetta vandamál og bendir m.a. á forvarnargildi þess að fræða unga menntskælinga um mikilvægi þess að sitja rétt og líta reglulega upp frá tölvunni.

Tölvuháls eftir fermingu

„Ég finn mikið fyrir þessari þróun hjá ungmennum en þau alast mörg hver upp í þessu og byrja í tölvunni ung að árum. Sumir krakkar eru jafnvel í marga klukkutíma á dag í tölvuleikjum. Ég hef fengið marga krakka hingað inn með allskonar einkenni á borð við höfuðverki, bakverki og hálsverki sem rekja má beint til tölvu- og farsímanotkunar.“
Hann segir marga unga einstaklinga hætta í íþróttum vegna slíkra óþæginda. „Ég hef verið með börn í meðferð sem fóru að finna fyrir ýmsum tölvuhálsa-einkennum fljótlega upp úr fermingu í kjölfar þess að þau fengu tölvu í fermingargjöf frá foreldrum sínum.“

Hann telur þessa þróun vera ógnvænlega því líkaminn er viðkvæmari en ella á uppvaxtarárunum. „Þegar líkaminn er að vaxa þá er verið að setja tóninn fyrir framtíðina og byggja upp grunn sem getur verið erfitt að breyta seinna meir.“

Foreldrar bera ábyrgð

Hann telur vandamálið liggja að miklu leyti hjá foreldrum enda er eðlilegra að þau beri ábyrgðina en ekki barnið. „Það er gríðarlega mikilvægt, barnanna vegna, að þau fái ekki að vera fyrir framan tölvuna í marga klukkutíma án þess að hreyfa sig eða að teygja úr sér. Þetta snýst um að foreldrarnir séu meðvitaðir og veiti börnunum sínum aðhald. Yfirleitt eru það foreldrarnir sem kaupa tölvurnar fyrir börnin og það er þeirra að stýra notkuninni. Það er mjög ónáttúrulegt fyrir börn að fá ekki að hreyfa sig og reyna á sig, að eyða æskuárunum í skrýtnum stellingum fyrir framan tölvuna er algjörlega ótækt.“