Bakverkir – Hvað veldur?

Flestir hafa heyrt orðin þursabit, tak í bakið og mjóbaksverkir.
En hver er þýðingin og munurinn á milli þeirra?
Allt geta þetta verið mismunandi heiti yfir sömu eða svipuð einkenni þar sem verkjum er lýst í eða í kringum mjóbakssvæðið. Einkennin geta verið staðbundin eða leitt niður í rasskinnar eða fram í nára sem dæmi. Oft fylgir þessum verkjum yfirspenna í vöðvum umhverfis verkjasvæðið ásamt stirðleika við hreyfingar. Einkenni geta verið stöðug eða bundin ákveðnum tíma eða athöfnum, komið skyndilega eða ágerst yfir lengri tíma.
Það er því óhætt að segja að mjóbaksverkir geta verið mjög fjölbreyttir.
Þeir sem hafa upplifað slík einkenni vita vel hversu hamlandi þau eru. Svo mikil eru áhrif mjóbaksverkja á daglegt líf að samkvæmt rannsókn Global Burden of Disease (GBD) sem metur áhrif sjúkdóma á örorku og fötlun eru mjóbaksverkir efstir á lista hvað þetta varðar, á undan 290 öðrum sjúkdómum.

En hverjar eru orsakir mjóbaksverkja?

Þetta er spurning sem ég fæ oft sem kírópraktor og sjúkraþjálfari. „En ég var ekki að gera neitt“ er setning sem oft fylgir. Svarið er því miður að í sirka 75% tilfella er nákvæm orsök óþekkt.
Þótt nákvæm orsök sé ekki þekkt er vitað um ákveðna áhættuþætti sem oft er hægt að tengja við núverandi ástand.

Þessir áhættuþættir eru eftirfarandi:
Kraftur/átök – að beita of miklu afli, svo sem við lyftu, getur valdið skaða.
Endurtekningar – að endurtaka sömu hreyfingu til lengri tíma, sérstaklega þær hreyfingar sem krefjast snúnings á hrygg.
Hreyfingaleysi/óvirkni – getur bæði átt við skrifstofustörf þar sem viðkomandi situr megnið af deginum eða störf sem krefjast þess að maður haldi sömu stöðu til lengri tíma.

Við alla þessa áhættuþætti er líkamsstaða og líkamsbeiting sérstaklega mikilvæg. Léleg líkamsstaða getur aukið álag á vöðva og liðbönd ásamt því að auka álagið á hrygginn sjálfan. Með tímanum getur þetta aukna og ranga álag haft neikvæð áhrif á æðar, taugar, vöðva, liðamót og hryggþófa. Rétt líkamsstaða og beiting er einföld en mikilvæg leið til að draga úr þessum fylgikvillum.

Hvernig losnar maður við mjóbaksverki?

Þrátt fyrir að rannsóknir bendi til þess að í 80–90% tilfella hverfi einkenni á innan við sex vikum, þjáist meirihluti fólks af endurteknum köstum mörgum árum eftir upphaf einkenna. Meðferð verður því ekki aðeins að einblína á einkennin á meðan viðkomandi er með „tak“ í bakinu heldur einnig verður meðferðin að vera fyrirbyggjandi til að minnka líkur á þessum endurteknu köstum.
Meðferðir, svo sem sérhæfðar æfingar til að styrkja og auka úthald í tognuðum vöðvum umhverfis hrygg, ýmsar mjúkvefjameðferðir ásamt kírópraktískum meðferðum til að minnka spennu og verki ásamt því að endurheimta eðlilega hreyfingu á svæðinu, hafa reynst öflug tól við að sporna gegn langvarandi áhrifum.