Hestamennska fyrir líkama og sál

„Allir hestamenn geta verið sammála um að reiðtúr á góðum hesti sé hressandi bæði fyrir líkama og sál. Þó hafa þeir líklega flestir heyrt frá fólki sem er síður fyrir hestamennsku að það sé lítið mál að ríða út; maður einfaldlega sitji og hesturinn sjái um alla vinnuna. Þetta er alrangt, því að sitja og stjórna hesti er mikil vinna og góð þjálfun fyrir allan líkamann,“ segir Helga Björg kírópraktor.

Hún segir augljósustu vinnuna fara fram í höndum, handleggjum og fótleggjum. „En hún er hvað mest í baki knapans. Bakið er flókið kerfi margra vöðvalaga og hryggjarins sem saman gera okkur kleift að sitja og fylgja hreyfingum hestsins án þess að trufla takt hans og jafnvægi.“ Helga Björg bendir á að þegar fólk sitji hest noti það mikið djúpu vöðvana í kviðnum til að sitja upprétt og halda jafnvægi. „

Að hafa sterka djúpvöðva er mjög fyrirbyggjandi gegn bakverkjum og þeir verja líkamann þegar hann verður fyrir hnjaski eða höggi eins og að detta af baki.“ Það sem gerir útreiðar sérstaklega góðar fyrir líkamann að mati Helgu Bjargar er að hreyfingar hestsins sem fólk þarf að fylgja eftir eru í allar áttir (fram/ aftur, upp/niður og hægri/vinstri) og þjálfa því vel jafnvægi, samhæfingu og líkamsvitund. „Þessi hreyfing á hestinum er einstök leið til að liðka líkamann, sérstaklega bakið,“ segir hún.

Falleg óþvinguð áseta skiptir máli

Helga Björg segir rétta ásetu skipta miklu. „Falleg áseta á að vera óþvinguð og ekki óþægileg fyrir knapann. Ef knapinn finnur fyrir verkjum og óþægindum í baki eða annars staðar í líkamanum í „réttri“ ásetu, sama hver gangtegundin er, þá er það merki um að ekki sé allt með felldu í stoðkerfinu, það er beinagrindinni og vöðvum sem henni tengjast.

Skekkja í stoðkerfinu getur verið meðfædd eða tilkomin vegna hnjasks hvenær sem er á ævinni. Sé skekkjan ekki leiðrétt í þeim tilgangi að stoðkerfið starfi rétt getur vandamálið ágerst og valdið því að við beitum okkur rangt og komið af stað keðjuverkun í öllum líkamanum,“ upplýsir hún. „Heilbrigt stoðkerfi er grunnurinn að því að við beitum líkamanum rétt og getum notið hreyfingar og útiveru, eins og útreiða, til fulls.“

Helga Björg Þórólfsdóttir B.Sc. D.C.
Kírópraktor
Fréttablaðið 30.ágúst 2016