Mjóbaksverkir vegna langverandi setu
Allur mannslíkaminn er „hannaður“ með það að leiðarljósi að hann sé meira og minna á hreyfingu. Það er því í rauninni mjög óeðlilegt fyrir hann að þurfa að sitja í lengri tíma, sama hvort það er í stól, á gólfi, í sófa eða bíl.
Þegar við sitjum er líkaminn hreyfingarlítill og þunginn situr nánast allur á mjóbaki og mjöðmum og vöðvarnir sem við sitjum á eru ekkert örvaðir og stífna upp. Þegar við stöndum loksins upp eru mjaðmirnar stífar og þegar setan er orðin langvarandi verða mjaðmavöðvarnir krónískt stífir sem er mjög hamlandi í allri hreyfingu. Íþróttameiðsli eins og tognanir má mjög oft rekja til þess að líkaminn hefur þurft að vera í sitjandi stöðu í langan tíma og þarf svo allt í einu að gera hreyfingar eins og að hlaupa hratt eða stökkva hátt. Í raun er verið að fara fram á það að vöðvar sem eru krónískt stífir séu allt í einu mjög liðugir. Gott dæmi um þetta er átta tíma seta í skólanum og svo er farið beint á CrossFit æfingu. Það mætti bera þetta saman við það að taka steik beint út frystinum og skella henni á grillið, en það vita allir að maður gerir ekki.
Á meðan við sitjum erum við yfirleitt með hendurnar fyrir framan okkur, til dæmis á lyklaborði, í símanum, að keyra eða halda á stýripinna. Vöðvinn sem togar hendurnar fram er brjóstvöðvinn og þegar hann er notaður svona gríðarlega mikið og lengi í einu verður hann stífur og fer með tímanum að toga axlirnar og höfuðið fram. Þetta hefur áhrif á alla líkamsstöðuna og veldur allt of miklu álagi á allt bakið, lærin og kálfana. Annað sem gerist er að þessi ranga líkamsstaða, þ.e. maður verður aðeins hokinn, leiðir til þess að líffæri eins og lungun fá minna pláss og þau vinna ekki eins vel og þau annars gætu. Þetta hefur áhrif á öndun og þar með þrek og orku. Þetta vandamál getur svo orðið enn stærra ef maður situr hokinn, sem enginn gerir af yfirlögðu ráði en allir hafa einhvern tímann gerst sekir um, og gerist auðveldlega til dæmis á löngum skóladögum, sérstaklega ef viðfangsefnið er síður áhugavert.
Vesturlandabúar sitja mjög mikið, enda er það þægilegt. Við eyðum árunum sem við erum að vaxa og þroskast, eða árunum sem við erum í grunnskóla og menntaskóla, meira og minna sitjandi; við sitjum í skólanum, í bílnum, þegar við borðum, spilum tölvuleiki, erum í símanum, horfum á sjónvarpið o.s.frv. Þetta hefur vissulega áhrif á líkamsstöðuna og það hvernig líkaminn hreyfir sig þegar við loks stöndum upp og veldur því yfirleitt að við beitum okkur rangt.
En hvað er til ráða?
Það er auðvitað ekki hægt að komast hjá því að sitja mikið en til að draga úr óteljandi mörgum neikvæðum áhrifum þess er hægt að grípa til ýmssa ráða.
Fyrst og fremst er gott að passa það að sitja bein/n í baki og reigja höfuðið ekki fram (eða ofan í símann), standa upp reglulega og sitja ekki í marga klukkutíma í einu. Annað ráð er að teygja á og virkja vöðva sem stífna upp þegar við sitjum lengi og þannig má koma í veg fyrir margs konar íþróttameiðsli og verki sem flestir finna fyrir á einhverjum tímapunkti, til dæmis verki í mjóbaki og öxlum og höfuðverki.
Það sem virkar best er að bíða ekki eftir stífleikanum og verkjunum heldur koma í veg fyrir þá og halda líkamanum í góðu lagi, enda krefst það miklu minni tíma og fyrirhafnar. Þess vegna er alltaf mikilvægt að passa hvernig maður situr, á hverju og hversu lengi því það er hreinlega ekki hollt.